
Siðareglur fyrir ábyrga hvalaskoðun
Elding leggjur mikla áherslu á að hvalaskoðunarferðir okkar hafi sem minnst áhrif á lífríki sjávar, en skili um leið sem bestu upplifun fyrir bæði gesti og þau dýr sem við mætum á ferðum okkar.
Sem stofnaðili Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, áttum við virkan þátt í mótun siðareglna um ábyrga hvalaskoðun, sem voru innleiddar árið 2015 og hafa síðan orðið að viðurkenndum staðli innan greinarinnar hér á landi.
Þar sem engar opinberar reglugerðir eru til um hvalaskoðun á Íslandi, töldum við mikilvægt að setja skýrar leiðbeiningar sem vernda hvali og stuðla að sjálfbærum hvalaskoðunarferðum. Með því að lágmarka áreiti og sýna náttúrunni virðingu, eru meiri líkur á að hvalir snúi aftur í flóann.
Hvers vegna skiptir þetta máli
Siðareglurnar tryggja siðferðilegar og ábyrgar hvalaskoðunarferðir og stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi ábyrgrar hvalaskoðunar. Við áttuðum okkur snemma á mikilvægi þess að ganga enn lengra í þessari skuldbindingu, og höfum því innleitt okkar eigin, strangari viðmið. Hvalir og höfrungar eru villt dýr, og mannleg starfsemi getur haft áhrif á hegðun þeirra og jafnvel lífslíkur til lengri tíma. Við leggjum mikla áherslu á að öll návígi við hvali og höfrunga séu á forsendum dýranna sjálfra og leyfum þeim að halda áfram sinni náttúrulegu hegðun óáreitt.
Leiðbeiningar fyrir ábyrga hvalaskoðun:
Að nálgast hvali og höfrunga
Við nálgumst hvali og höfrunga hægt og rólega, án skyndilegra hreyfinga eða stefnubreytinga. Við nálgumst þá alltaf frá hlið eða á ská - aldrei beint að framan eða aftan frá. Viðhalda skal a.m.k. 300 metra fjarlægð þegar hvalur sést fyrst og draga strax úr hraða. Ef hvalur eða höfrungur kýs að nálgast bátinn okkar, leyfum við því að gerast og reynum að halda kyrru fyrir eftir fremsta megni.
Stjórnun hraða og hávaða
Minnka skal hraða niður í 5–6 hnúta þegar komið er innan við 300 metra frá hval eða höfrungum. Forðast skal óþarfa hávaða frá vélum og snöggar hreyfingar nálægt dýrunum. Ef höfrungar ákveða að synda meðfram stefni bátsins (bow-ride), skal halda jöfnum hraða án þess að hvetja hegðunina áfram.
Virðing náttúrulegrar hegðunar
Við eltum eða fylgjum ekki hvölum ef þeir halda sér frá okkur. Ef hvalur sýnir merki um vanlíðan eða áreiti, aukum við fjarlægðina eða yfirgefum svæðið. Við takmörkum þann tíma sem varið er með einstökum hval eða hópi viðkomandi tegundar við 20-30 mínútur.
Höldum fjarlægð
Varúðarsvæðið er sett við 50 metra - það þýðir að bátar eiga ekki að nálgast hvali af ásettu ráði innan þessarar fjarlægðar. Skipstjórar okkar halda oft meiri fjarlægð en aðrir til að tryggja öryggi og vellíðan hvalanna.
Athugið að óreyndir eiga oft erfitt með að meta fjarlægðir á sjó. Það sem virðist nálægt getur verið blekkjandi, og því er reynsla og þjálfun lykilatriði í að tryggja ábyrga og örugga nálgun.
Samvinna og öryggi á sjó
Þegar fleiri en einn bátur er á svæðinu samhæfum við ferðir okkar til að tryggja að aðeins eitt skip sé í námunda við hvalinn í einu. Við lokum aldrei af eða siglum framfyrir leið hvals, heldur tryggjum að hann hafi alltaf möguleika á að halda áfram án hindrana. Ef annar bátur er þegar að fylgjast með hval, bíðum við okkar tíma eða höldum fjarlægð og reynum eftir fremsta megni að koma ekki of mörgum bátum að viðkomandi dýri.
Engin bein afskipti
Við snertum ekki, fæðum ekki né syndum með hvölum og höfrungum. Við forðumst allar athafnir sem gætu gert hvali og höfrunga háða mannlegri nærveru eða hegðun. Ferðir okkar byggja eingöngu á áhorfi og virðingu án beinna afskipta, þar sem allar hvalaskoðunarferðir eiga sér stað á þeirra forsendum og með siðferðilegum viðmiðum að leiðarljósi.
Umhverfisvitund
Við leggjum mikla áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif okkar með því að fylgja sjálfbærum vinnubrögðum, bæði á sjó og landi. Sérstök áhersla er lögð á að vernda sjófugla og varpsvæði þeirra, koma í veg fyrir mengun með því að draga markvisst úr úrgangi og losun. Við tökum einnig virkan þátt í hafrannsóknum og verkefnum sem styðja við langtímavernd hvala, sjófugla og lífríkis hafsins í heild.
Ábyrg nálgun við strendur
Þegar hvalir halda sig nærri landi erum við meðvituð um að aukin umferð báta getur valdið þeim streitu og takmarkað hreyfingarfrelsi þeirra. Ef fleiri bátar eru á svæðinu reynum við að samhæfa okkur til að forðast þrengsli og gefa hvalnum næði til að hreyfa sig á eðlilegan hátt. Ef hvalur virðist verða órólegur vegna bátaumferðar tökum við meira tillit, fylgjumst með úr fjarlægð eða leitum að öðrum dýrum í nágrenninu.
Okkar skuldbinding til náttúruverndar
Elding styður ábyrga hvalaskoðun og vinnur náið með hafrannsóknarfólki að því að fylgjast með hvalastofnum, hegðun þeirra og farleiðum. Auk þess framkvæmum við okkar eigin rannsóknir um borð til að öðlast betri skilning á áhrifum starfseminnar og til að bæta vinnubrögð okkar enn frekar.
Með því að fylgja siðareglum um ábyrga hvalaskoðun stuðlum við að vernd þessara stórkostlegu dýra og tryggjum að komandi kynslóðir fái einnig að njóta nærveru þeirra í villtri náttúru.
Tilkynna óábyrga hegðun
Við vinnum markvisst með öðrum fyrirtækjum að dýravelferð og að efla ábyrga starfshætti. Jafnframt beitum við okkur fyrir því að skýrari og betri leiðbeiningar verði settar fyrir greinina í heild, til að tryggja sjálfbæra hvalaskoðun til framtíðar.
Ef þú hefur áhyggjur af því hvernig hvalaskoðunarferðir eru framkvæmdar á svæðinu, eða verður vitni að hegðun sem ekki samræmist siðareglum um ábyrga hvalaskoðun, þá hvetjum við þig til að hafa samband við áhöfnina okkar, senda okkur tölvupóst, eða hafa beint samband við Hvalaskoðunarsamtök Íslands!